júlí 30, 2004

Verslunarmannahelgarfríið...vá langt orð.

Nú er komið frí. Loxins komið frí....og núna er ég að tala við Andra á msn og tala við Freyju sem er að lesa eitthvað blað, og að blogga og að brenna diska fyrir Magga og Ástu, á meðan ég bíð eftir að Silli og Tína komi í heimsókn. Ekkert smá fjölhæfur. Annars er bara gott að vera kominn í frí. Af þessum frönsku mönnum á hálendinu að frétta er að þetta er líklega gabb, en samt eru þyrla og jeppar og fullt af björgunarsveitarmönnum að leita útum allt. Hvaða fávita dettur í hug að gabba svona... Menn að leggja sig í stórhættu við að bjarga fólki sem ekki í nauðum. Nema því vanti klósettpappír :)

júlí 29, 2004

Fækka fötum til að blotna ekki.

Núna þori ég varla heim, það er svo mikil rigning og rok. Ég samt brá að það ráð þegar ég kom í morgun á hjólinu mínu að vera í stuttbuxum. Ég fauk í vinnuna í morgun en hinsvegar verður mikill mótvindur á leið heim og meiri rigning. En kosturinn við þessa ráðstöfun að vera í stuttbuxum er sú að fötin blotna ekki eins mikið þannig. Svo vantar frambretti á hjólið mitt og ef ég fer í poll eða er úti í rigningu spýtist alltaf vatn upp um mig allann, og sérstaklega skálmarnar á buxunum. Sem sagt, fækka fötum til að blota minna. Ég var bara með föt til skiptanna í bakpoka sem ég er í núna. Mæli með þessu. Svo las ég í fréttum að um 20 Franskir ferðamenn væru týndir uppi á fjöllum í versnandi veðri, hvassviðri rigning og vatnavextir í ám. Þyrlan og björgnarsveitir eru farnar upp á fjöll til að leita af þeim. Það spaugilega við þetta, ef svo mætti segja, því það er í raun ekki fyndið heldur grafalvarlegt, er að þeir eru allir með magakveisu sem stafar liklega af matareitrun. Það merkir að þeir eru allir bölvandi á frönsku og með bullandi niðurgang lengst uppi á heiði í skítaveðri, sem óneitanlega fær nýja merkingu við þessar aðstæður. Líklega er allur klósettpappírin búinn og mosinn dugir skammt í svona aðstæðum. :)

júlí 28, 2004

Sundlaugarvörðurinn ógurlegi.

Það er búið að vera mikið að gera í vinnunni hjá mér þessa síðustu daga og svo bilaði fyrst heimasíminn og svo netið heima. Því var lítið um blogg hjá mér síðastliðna daga. Ekki mikið búið að gerast. Ég fór með Bjarna bróðir í golf og hann vann mig með fimm höggum á korpunni. Ekki vegna þess að hann var að spila svona vel, heldur var ég að pútta eins og alger bjáni. Ég var í nóló gírnum. Í golfinu á maður að pútta sem sjaldnast, en leikurinn sem ég var í gekk útá það að pútta sem oftast, þó ég væri ekki að reyna spila þann leik. Á þessu eru samt tvær góðar hliðar, Bjarni e,r og veður næst "overconfident", og ef ég spila eins og maður í styttri höggum og púttum rústa ég honum :) Við fórum í sund með Silla og Tinu á mánudaginn var í Laugardalslaugina og ég fékk frítt inn :) þar sem ég er í bónus klúbbnum í Hreyfingu. Silli og Tina unnu okkur Freyju í sundboltakörfuleik með Make it-take it fyrirkomulagi. En við Freyja vorum að draga á þau þegar við hættum til að geta komst í pottinn smá stund. Svo er Silli líka svo stór að það er ekki gaman að vera á móti honum í svona leikjum :) Svo lentum við í pottinum sem er ekki í frásögur færandi. nema að þessi sundlaugarvörður var svo skapstyggur að mönnum og konum í pottinum stóð ekki á sama. Satt að segja varð fólk skelfingu lostið, þegar hann sagði við einn 8 ára strák sem sat í pottinum með svona lítinn bolta, "EKKI VERA MEÐ BOLTANN Í POTTINUM, FARÐU MEÐ HANN Í GRUNNU LAUGINA". Hann sagði þetta ekki. hann þrumaði hátt með reiðilegri röddu yfir allar laugarnar. Svo rétt á eftir sagði hann svo aftur með sinni reiðu rödd. "LÖGIN LOKAR EFTIR 10 MÍNÚTUR." Þegar hér var komið sáum við okkur bestan kost að flýja í dauðans ofboði. Enda sagði hræðslusvipur sundlauga gesta meira en mörg orð..... Nú er ég ekki vatnshræddur eins og sumir, heldur sundlaugavarðahræddur. Þetta syndrome heitir víst eitthvað, en ég fann það ekki á netinu. Google brást mér... :( Annars er lítið að frétta. Horfði á I Robot með Will Smith, sem var ok, en afskaplega þunn, þar sem ekki var kafað ofan í málin, heldur snérist þetta aðallega um hasar. Svo skipti ég yfir á Van Helsing, og eftir um 20 mín ákvað ég og Freyja að fara inn í rúm að lesa. Ég að lesa Harry Potter and the Order of Phoenix og Freyja var að klára The Notebook sem er núna Hollywood mynd sem verður sýnd hér bráðum. Man ekki hvaða bók hún er að lesa. Einhver bók um stelpu sem er myrt og hún bútuð niður, og svo horfir hún á líf aðstandenda og morðingja frá himnum. Svo var ég að sækja um vinnu hjá fyrirtæki einu í bænum og vona að ég fái starfið. En eins og vanalega verður svarið líklega nei. En maður veit samt aldrei..... Meira síðar.......

júlí 23, 2004

Lítið að segja þessa dagana.

Ég fór svo miklum framförum í blogginu um daginn að ég er bara útbrunninn.....Nei segi svona bara. Það er búið að vera nóg að gera í vinnunni, ennþá að vinna persónulega mál fyrir yfirmanninn. Það er eins gott að hann ráði mig áfram vegna þess að ég er að redda ótrúlegustu hlutum fyrir hann prívat og persónulega. Hann þakkar ekki fyrir sig einusinni. Baaastard. Það er rigning andsotans.. og ég á reiðhjóli... :(

júlí 21, 2004

Greindarvísitölupróf götunnar

Þessi titill sem vísar í póst sem Mr. Cumulative Sum Guðmundsson ritaði sem comment við pistil minn um netsvindlara. Þetta orðalag er snilld, vegna þess að það segir svo mikið um fólk og viðbrögð þess við áreiti, og þær ákvarðanir sem það tekur. Þetta skiptir jú máli þegar maður hugsar um póltíkina og fjölmiðlana sem eru aðaumræðuefnið í samfélaginu í dag. Davíð "Hinn réttláti" Oddsson vill greinilega klekkja á Herra Ólafi Ragnari forseta (þetta með Herra, er bara til að stríða pabba :) Þetta sjá allir nema meðlimir og stuðningsmenn sjálfstæðisflokksins sem flokkast undir Já menn svokallaða. Það eru hinir foringja hollu fótgönguliðar flokksins. Þessi lýsinga minnir svolítið á forvera og forfeður og skoðanabræður sjálfstæðismanna í stríðinu, Nasista, og hreyfingu ungliða þeirra, Hitlers ækuna. Hinn svokallaði vitiborni maður sem gengst undir skilgreiningu Mr. C. Sum. um greindarvísitölu götunnar, á hverjum degi, sér þetta eins og það er. Síðasta tilraun Davíðs til að ná sér niðri á Forsta okkar, og í leiðinni traðkar hann hann á því eina sem kalla mætti alvöru lýðræði, með því að svifta almenning réttinum til að kjósa. Dobbelja Brúskur í Ameríkunni gerði þetta í Florída og er ásakaður um svindl, og óheiðarleika. En rétt eins og þeir vinir og skoðanabræður (veit ekki á hvorn hallar meira) Dobbelja og Davíð skiptir heiðarleiki ekki máli, ekki frekar en persónulegir hagsmunir. Dobbelja vill olíu og sýna Brúsk eldri að eitthvða sé varið í hann með þvi að klára eitthvða sem sá gamli byrjaði á (Írak og það allt) og Davíð að sýna skítlega eðlið sitt og ná sér niður, persónulega, á Ólafi fyrir að taka af honum völdin þegar þjóðinni ofbauð heiftin og ruglið í Davíð Oddssyni. Davíð ætlar sér að drepa niður málskotsrétt forseta, með því að freista þess að breyta stjórnaskránni seinna, og með því að afturkalla eigin lög sem hann taldi nógu góð, og reyndar stuðningsmenn þessara laga líka, að þau voru samþykkt af löggjafarsamkundu okkar V-Íslendinga. Annars er það af mér að frétta að ég er bara að vinna og fer út á tún eftir vinnu að golfast til að æfa sveifluna, allavega er það á stefnuskránni. :)

júlí 19, 2004

Helgin er komin... og farin.

Þetta var viðburðarrík helgi. Freyja kom heim á föstudagskvöldið og það var Gulla systir hennar sem kom með hana heim. Ég var bíllaus og gat því ekki sótt hana á flugvöllinn. Við sátum og kjöftuðum til miðnættis og það va fínt. Daginn eftir fórum við Freyja á fætur til að taka til og gera íbúðina fína, sem tókst svona sæmilega. Við vorum búin að plana að hitta Vilborgu vinkonu Freyju sem er að flytja til Akreyrar, en það klikkaði þar sem við vorum að hugsa um jazzinn á Jómfrúnni en við nenntum ekki þangað þannig að við Freyju ætluðum í sund, en þegar við erum búin að labba alla leið niður í laugardalslaug í frábæru veðri, talaði Freyja við Vilborgu sem var búin að segja foreldrum sínum frá jazzinum. Þau fóru þangað og við hittum bara Vilborgu síðar, en við Freyja fórum til mömmu og pabba án þess að fara í sund. Þess í stað fengum við bílinn lánaðan og fórum í bíltúr á Þingvelli, Laugarvatn, Skálholt, Biskupstungur, Reykholt, Laugarás, Sólheima í Grímsnesi Selfoss og í fjöruna okkar Freyju við Eyrabakka brúnna, ásamt fleiri stöðum þarna á milli. Meðal þess sem við sáum var brúin í Laugarási sem pabbi byggði fyrir lööngu síðan. Flott hengibrú þar... gott hjá þér pabbi. Annars vorum við að ræða það hvert okkur langaði í útilegu, og við komumst að því að Snæfellsnesið er næsta stop, hvort sem við förum bara tvö eða með Magga og Ástu, og þeim leist vel á Snæfellsnesið um daginn allavega. Sunnudagurinn var þannig að við vorum á bílnum og fórum í Smáralindina þar sem við sáum ömurlegt tívolí sem var svo dýrt að ég reyndi ekki að fara í einn skotbakka einusinni, til að reyna vinna mér inn svo sem eitt tuskudýr eða svo. Þetta er algert bull, og að fólk og unglingar séu að láta hafa sig að fíflum með því að borga í þetta er alveg ótrúlegt. En ef fólk virkilega borga í þetta, þá á það, það bara skilið að vera "ripped off". Svo fórum við á Bása, skotsvæði Golfklúbbs Reykjavíkur og vorum þar, áður en við fórum heim og svo þaðan beint í móttöku hjá Fram fyrir leik Fram og ÍBV, þar fengum við snittur og kökur og rauðvín og bjór og gos og bara það sem okkur langaði í. En við fórum ekki á leikinn, þvi Freyja kíkti til Þórunnar vinnkonu sem býr þar nálægt og ég sá leik með liðinu Áreitni FC sem ég stofnaði ásamt Andra fyrir 7 árum síðan. 2-0 í hálfleik fyrir Áreitni en Gerifulgarnir sigruðu arfaslakt lið Áreitni í síðar hálfleik og staðn varð 2-5 í lokin. Sorglegt. Reyni að segja eitthvað meira en bara lýsingu síðar í dag. Verð að fara segja eitthvað að viti :) bráðum.

júlí 16, 2004

Kærastan kemur til mín :)

Þetta er góður dagur í dag. Gott veður og Freyja kemur heim til mín í kvöld eftir 5 daga fyrir norðan í sveitasælunni og heyskapnum.  Þessir dagar hafa verið í raun fínir, en Freyju hefur vantað. Samt svaf ég yfir mig í morgun, ætlaði í gymmið klukkan 6.20 en svaf til 8,20. Kannski ekki nema von, ég var með gesti í gær til að verða ellefu og svo sofnaði ég ekki fyrr en eftir miðnætti.  Það kemur dagur eftir þennan og ég stefni á að bæta upp skrópið með ferð í gymmið á morgun. Freyja spurði mig hvort ég væri búinn að gera eitthvað af mér, og ég varð eins og kleina, þvi ég vissi ekki upp á mig neina sök. Eftir að hafa spurt hvað hún væri að meina, kom undarlegt svar; "var bara að athuga hvort þú værir búinn að breyta í stofunni eða eitthvað þannig". Þetta var undarlegt, en skiljanlegt þar sem mig langar til að breyta í stofunni, en Freyja er svo íhaldssöm að það má ekki. Ástæðan fyrir þessu undarlega svari var sú, að fyrir nokkrum vikum eða mánuðum vorum við að tala um þetta í fjölskylduboði, og ég sagði að ef hún vildi ekki breyta með mér myndi ég gera það þegar hún færi norður alein einhverntímann.  Samt er það fyndnasta við þetta að ég var búinn að gleyma þessu og hafði ekkert slíkt í huga....þar til núna :) múúhahaha..... Ég hef nokkra tíma frá því að ég kem heim úr vinnunni þangað til hún kemur heim :) þannig að ég get umturnað öllu og þá er skaðinn skeður og ekki hægt að skamma mig neitt. Allavega ekki mikið....vona ég....

júlí 15, 2004

Ruslpóstur og fleira

Skrapp út á tún að æfa sveifluna í gærkveldi, notaði P og S og allt gekk upp :) Skemmtileg tilbreyting það. Annars er stórkvöld í kvöld. Maggi og Ásta koma í heimsókn og við eldum saman og kíkjum Penn og Teller Bullshit, South Park og fleira gott sjónvarpsefni. Var víst búinn að lofa þeim að kópera Nick Cave, sem er snillingur náttúrulega. Ég fór í spinning í morgun og með mér í gymminu var bara ekkert nema nágrannar mínir. En núna er ég að hlusta á Ozzy Osbourne í útvapinu, og hann á sama ammælisdag og ég. Annars var ég að lesa grein af BBC vefnum sem segir frá mönnum sem nota netið og þekkingu sína á tölvum og netinu til að skemmta sér á kostnað, og ná sér niður á Nígeríu svikamönnum svokölluðum, sem senda bréf og lofa milljónum en svíkja svo þessa bjána sem falla fyrir þessu. Eins og Íslendingurinn sem kom fram í Dagblaðinu. Ég fæ nokkur svona bréf af og til, en þrátt fyrir mikla gróðavon hef ég ekki fallið fyrir þessu ennþá :) En fá póst frá vinum og kunningjum sem eru að lofa einhverju, eins t.d. hamingju eða peningum ef ég sendi þetta 5 aðila eða allra sem ég þekki, ÞAÐ ÞOLI ÉG EKKI. Þetta ætti að banna. SKAMM þið sem eruð að senda þetta andskotans rusl. Besta leiðin til að losa sig við svona póst er að nota ekki sína aðal addressu á vefsíðum, og bara nota hana í póst sem maður á von á og sendi á áreiðanlega aðila. Önnur leið er líka til, en hún er ekki endilega skynsöm, það er að flooda pósthólf þeirra sem senda manni svona rusl, sérstaklega ef þeir eru vinir eða fjölskylda...Annars er gullna reglan sú að það er bannað að svara rulspósti, því þá kemur meira og meira og meira og meira og meira... Ég ætla að reyna komast út á tún samt í kvöld og slá nokkrar kúlur áður en þau koma.

júlí 14, 2004

Kominn í vinnuna.. er að elta uppi allskonar misfellur og eitthvað sem gengur ekki alveg upp. Timafrekt en gaman. Veit ekkert hvað ég geri í dag. Byrja á því að klára vinnuna og hengja upp þvott heima. Svaka stemming.... Er frekar andlaus í þessa stundina og er í alvöru að hætta við að pósta þetta innihaldslausa blogg.

júlí 13, 2004

Puntur... menningar punktur.

Skúli var svikinn.... það var þessi eðal menningar Punktur eða bara Punktur eins það heitir á laugardaginn. En það er þér að kenna skúli að vera flækjast í Ameríku þegar það er punktur á dagskra. En góðu fréttirnar eru þær að ég fann gamalt blað sem við gáfum út... Bowling Weekly, sem er alger snilld. Og verða greinar úr því blaði birtar á netinu við tækiæri.

Aleinn .....

Ég er orðinn aleinn. Freyja fyrir norðan og ég einn heima. Það er svolítið undarleg tilfinning að koma heim úr vinnunni og vita að enginn kemur heim rétt á eftir, eða bíður eftir manni. En ég er hress og fékk mér pizzu í kvöldmat, og horfði á Harry Potter and the Prisoner of Azkaban í sjónvarpinu aleinn.....Skilinn einn eftir... andvarp... Nú er það næst að fara í draumalandið undir sænginni....og vakna svo spærkur og fara í vinunna....

Morgun dauðans part 2

Ég er ekki viss um að skáldið Lorca heiti Federico, ég veit bara að Fellini hét líka Federico...en hverjum er ekki sama. Fór í spinning í morgun og lifði bara af.. þetta var mikið púl, en ég komst frá þessu lifandi og er bara mjög sprækur. Svaf reyndar yfir mig en náði í tímann, þó Gunni "Der Fleisch Kind" hafi farið á undan mér og sleppt spinning þar sem ég kom ekki....fyrr en seint og síðarmeir....Við ætlum að fara á fimmtudaginn í staðinn. Búið að vera mikið að gera núna fyrir hádegið, og ég var smá þreyttur eftir tímann, en það sem gerði þetta að öðrum morgni dauðans var þegar ég hjólaði í vinnuna, það var ekki létt. Annars er þetta "Kind" dæmi hjá Gunnari eitthvað sem verður að skoða nánar. Hann kom með þá hugmynd að gera kvikmyndahandrit um rollu sem verður fyrir andlegri upplifun. Málið er í vinnslu... Heyrði í Freyju... hún er kominn á fullt í heyskapinn, gott hjá henni.

júlí 12, 2004

Morgun dauðans....

Freyja er farin norður í sumarfrí :( sem þýður að ég verð einn heima í fimm daga. Aleinn og einmanna... :( En þessi morgun byrjaði ekki vel, fyrst vaknaði maður þunnur ennþá, allavega smá leifar af þynnkunni til staðar. Ég fór í gymmið og spiklaði það úr mér og lyfti það síðasta úr mér, kom heim flæktist fyrir Freyju meðan hún pakkaði og hjólaði svo í vinnuna. Næst verður það svona hálfgert sjálfsmorð.... spinning hjá klikkuðum kennara sem heldur uppi rosalegu tempói. Ég hef áhyggjur af mér, að ég verði veeeeruulega þreyttur eftir það, en meiri áhyggjur hef ég af Gunnari nágranna sem fer með mér. Hann hefur ekki farið í spinning áður, og ég verð með hjartabílinn fyrir utan ef illa fer :) Annars er lítið að frétta, ekkert í blöðum eða neinu.

júlí 11, 2004

Loxins er mér farið að líða vel. Klukkan er núna orðin 23,45 á sunnudegi, og þynnkan aðeins að skána. Ég þarf að vakna eftir 6 tíma til að fara í gymmið. Kvöldið var rosalega gaman. Frábær matur hjá Magga og Ástu. Grillað lambakjöt og kjúklingur, svakalega góð tómatsúpa og hvítvín, rauðvín, hellingur af bjór og hellingur af whiskey. Við drukkum Jameson eins og Paparnir sungu um og Maggi og Ásta lásu upp ljóð með tilþrifum. Eftir marga höfunda, sem sökum þynnku ég man ekki eftir, en reyni að setja það inn á morgun. Eitt man ég þó, við skáluðum fyrir Franco einræðisherra Spánar því hann drap Federico Garcia Lorca :) Svo var ég með hálfgerða tónlistarspurninga keppni sem var rosalega skemmtileg. Eitt af því sem við hlustuðum á var I'm leaving on a jet plane með John Denver, þar sem hann dó í flugslysi var textinn viðeigandi, sérstaklega fyrir þá sem hafa svartan húmor. Kræst hvað eg var þunnur... ekki drukkið svona í meira en eitt ár. Maður gerir það svo lítið þessa dagana, en mér tókst þó að skríða fram í sófa, Freyja skreið út á KFC og við horfðum á formúluna og svo á The Terminal með Tom Hanks, sem var ok. Þess á mill var húsfundur, sem ég hefði ekki komist á ef hann hefði ekki verið á næstu hæð fyrir neðan mig. Þar fékk ég kaffi hjá nágrönnum mínum, og það reddaði deginum. Næst á dagskrá er að klára bloggið núna og leggjast svo upp í rúm og lesa Harry Potter and the order of Phoenix, þar sem ég á bara um 850 síður eftir :) Svona til að ljúka þessu bloggi vitna ég í Seattle skáldið fræga sem skaut sig fyrir 10 árum, Kurt Cobain. I have a hangover.....

júlí 09, 2004

Nýr dagur kominn og kaffið góða orðið ekki eins gott. Búið að vera mikið að gera í dag í vinnunni, verkefnin hrúgast inn. Freyja er búin að bóka flug norður í sumarfrí, og ég verð heima að vinna á meðan. Get farið í golf, eða eitthvað sniðugt :) En af mér að frétta var Maggi og Ásta að bjóða okkur Freyju og Helgu vinkonu hennar í mat á laugardag, því við komumst ekki á menningar rúntinn sem við Maggi vorum búnir að skipuleggja um daginn, en í stað þess býður hann í mat um kvöldið. Ég er búinn að finna helling af efni til að skoða í Reykjavík, en það verður notað síðar, þegar ferðin verður farin. Síðast þegar við fórum í mat til þeirra var það salsa kjúklingur sem var alveg roooosaleeeega góður. Svo komu þau til okkar í sushi sem var rosalega gaman líka. Núna get ég varla beðið eftir því hvða gúmmulaði hún hefur handa okkur. Svo verður þetta menningarkvöld líka. Ég er ekki búinn að ákveða hvað ég á að vera með sem mitt framlag til menningar, en helst hallast ég að því að það verði "Da Vinci Code" pælingar eða einhver ómenning. Eða andmenning.

júlí 08, 2004

Enn fór ég í golf núna í kvöld, fór með Freyju og mömmu og pabba. Fór bara út á nýja skotsvæði Golfklúbbs Reykjavíkur sem heitir Básar. Það skutum við kúlum í allar áttir og átti bara fínan dag, sem er tilbreyting frá deginum áður. Var að slá langt með 7,5,4, og 3 tré og drivernum. Helvítis þristurinn var svo erfiður, en núna er ég að ná tökum á honum og náði nokkrum 180-200 metra höggum með honum. Freyja var að spila ókey, en hún er soldið hrædd við tré þristinn sinn, og er ekki að fara eftir því sem segir í snilldar bók kvengolfarans, "Berskjölduð á fyrsta teig", þar sem segir að maður eigi að elska allar kylfurnar sínar, ekki bara sumar. En hún náði smá tökum á honum. Gott hjá henni :) Mamma og pabbi eru að prufa þetta, hafa bara farið í nokkur skipti en maður sér alltaf smá mun á því hvað þeim fer fram. Þetta kemur með hægðunum... (er það ekki frekar ógðeslegt :) Ef fólki finnst þetta ósmekklega orðað, get ég ritskoðað bloggið mitt eins og Björn Bjarnason ráðherra gerði þegar hann samþykkti þetta "snilldar trikk" Foringjans (Davíð Oddsson)að breyta bara lögum um fljölmiðla því þjóðin er of heimsk til að kjósa um hvort þau verða að veruleika eða ekki. Þá kemur smá pæling... ef þjóðin er of heimsk til að kjósa um frumvarpið, er hún þá ekki alveg eins "vanhæf" til þess að kjósa til alþingis? Ergo...þjóðin kýs bjánalega, því hlítur Foringinn og hans skósveinar (hugtak sem ég skýri síðar :) að vera bjánar. Enda kjósa V-íslendingar bjánalega, og þá augljóslega kjósa þau bjána, og því er Davíð bjáni. Vá tóxt að segja þetta tvisar. :) Svo var gaman á fá komment, Takk Haukur... bið að heilsa Hafmeyjunni, Drottningurnni og Tuborg bjórnum í Köbenhavn.
Ahhh það er gott á fá gott kaffi. Annað að frétta...Ég talaði við Haukinn og Skúlann. Haukurinn benti mér á svalar leiðir til að laga lúkkið á síðunni og Skúlinn sagði mér frá ævintýrum sínum í heimi mjúkboltans eða Softball sem hann stundar í henni ameríku. Þar ræður "Georg Tvöfallt vaff Brúskur" eða "Dobbelja" eins og hann er kallaður meðal vina, eins og Bubba kóngs, ehh hemm.. meina Davíð Oddsson, hinn mikli foringi og landsfaðir okkar. Eins og vitrir menn hafa sagt, og það sem við V-íslendingar höfum tekið upp eftir þeim...."your wish is my command" eða "Yes master" (yess boss, á þrælamáli). Gott mál smá pistill um kaffi og softball endaði í þjóðfélagsádeilu...hmm mér fer fram :)
Ég skellti mér í golf á litla völlinn í Setberginu í gær með Freyju kærustunni minni, sem er ekki merkilegt nema fyrir það að spilamennskan mín var alger skelfing, Freyja var að spila ok, en ég var langt fyrir neðan mitt besta og það virkilega situr á sálinni minni. Ég hefði aldrei trúað því að þetta gæti verið svona þungt á sálartetrið. Líklega er ég með bakteríuna, golfbakteríuna, og einkennin farin að segja til sín. Ætli maður fái sér ekki hnébuxur og köbblótta sokka næst. Úff maður....
Þetta er búið að vera soldið strembið það sem af er degi, vaknaði klukkan 5,30 eftir að hafa farið að sofa á miðnætti, sem er frekar lítill svefn, og fór í gymmið. Djöflaðist á 33,38 mínútur á treadmill tæki, og lyfti svo smá og teygði og var kominn heim klukkan 8,00 þar sem Freyjan mín sat og horfði á morgunsjónvarpið á stöð 2. Eftir þennan ekki nógu mikla svefn, er maður búinn að vera soldið syfjaður. Kaffibolli gerði ekkert fyrir mig, þannig að ég fór út í búð og keypti "alvöru" kaffi sem ég upp á mitt einsdæmi og góðmennsku :) ætla að fá mér og bjóða samstarfsfélögum mínum, með fimmtudags bakkelsinu. Kólumbía kaffi frá Kaffi Tár, það er fínt, en best er Santo Domingo frá Te og Kaffi búðinni. ´ Ég verð víst á játa allt, ég er kaffisnobbari....og þoli ekki kaffi sem ekki er mjög gott. Svo verð ég að fara skrifa eitthvað af viti....ég vona að það komi síðar (vitið og skrifin :)
Þá er maður byjarðu að skrifa aftur. Hef ekki skrifað neitt að viti á netið síðan 1998-1999 þegar ég var með svona vefdagbók í háskólanum. En það er gott að vera kominn aftur í sæberspeisið. Ég ætla að finna betra útlit á síðuna þannig að hún gæti tekið einhverjum breytingum á næstu dögum.

Um mig

Myndin mín
I was born in Iceland and lived there for most of my life until I moved to the UK to study. I am enjoying life and educating myself at the same time.